Kröfuhafar Milestone geta vænst þess að fá 650 milljónir króna upp í kröfur sínar, samkvæmt tillögu skiptastjóra fyrir úthlutun úr þrotabúinu. Þetta á við um þá sem eiga samþykktar, óumdeildar og skílyrtar almennar kröfur í þrotabú Milestone. Heildarkröfur í þrotabú Milestone nema 95 milljörðum króna. Þær kröfur sem falla undir þá skilgreiningu sem nefnd er hér að ofan nema um 65 milljörðum króna.

Þrotabú Glitnis á mestan hluta krafna í þrotabú Milestone eða um 44 milljarða króna og gæti því átt von á að fá um 440 milljónir króna eða minna upp í kröfurnar. Aðrir eiga minna. Þar á meðal eru ALMC (áður Straumur Burðarás) með kröfu upp á sjö milljarða og Íslandsbanki með kröfu upp á tæpa sex milljarða.

Það voru þeir Karl og Steingrímur Wernerssynir sem áttu meirihlutann í Milestone á sínum tíma. Félagið fór á hliðina í kjölfar bankahrunsins og var lýst gjaldþrota í september árið 2009. Fram hefur komið að skiptastjóri hefur talið að Milestone hafi þegar verið komið í rekstrarvandræði haustið 2008 og nær eingöngu verið rikið á lánum frá Glitni.

Skiptastjóri Milestone hefur samkvæmt því sem fram kemur í Lögbirtingablaðinu boðað til skiptafundar á Hótel Nordica 3. desember næstkomandi.