Milestone lánaði Blagoj Mehandziski, fyrrum viðskiptafélaga þess í Makedóníu, eina milljón evra, um 183 milljónir króna á núvirði.

Í skýrslu skiptastjóra þrotabús Milestone, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að búið  eigi skuldabréf á hendur Mehandziski og að unnið sé að innheimtu þess. Til standi að ráða innheimtufyrirtæki í Makedóníu til verksins.

Milestone keypti sig inn í fyrirtæki Mehandziskis

Blagoj Mehandziski er stofnandi apótekakeðjunnar Zegin. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að Mehandziski hafi átt Zegin að öllu leyti frá árinu 1989 til 2006.

Þá hafi íslenska eignarhaldsfélagið Milestone keypt 50 prósenta hlut í því og í kjölfarið stofnað nýtt fyrirtæki út frá Zegin sem kallist Pharma Investment. Það fyrirtæki er skráð í Hollandi og á keðju apóteka víðsvegar í mið- og austur-Evrópu.

Milestone átti í Pharma Investment í gegnum hollenska félagið Top Investment Group (TIG). Þrotabú Milestone á kröfu upp á 1,2 milljarða króna á TIG. Í skýrslu skiptastjórans kemur fram að unnið sé að sölu apótekakeðjanna í umboði Glitnis, sem sé stærsti hagsmunaaðilinn í málinu auk þrotabúsins.

Á heimasíðu Zegin kemur fram að fyrirtækið sé eitt af tuttugu stærstu fyrirtækjum Makedóníu. Í ávarpi Mehandziskis sem þar er að finna er því einnig haldið fram að Zegin sé eitt farsælasta fyrirtæki landsins.

Eiga vínekru sem þarf hundruði milljóna til að geta starfað

Þrotabúið á einnig hlut í vínekru í Makedóníu í gegnum vínframleiðslufyrirtæki sem heitir Kokino. Í skýrslu skiptastjóra Milestone kemur fram að Kokino standi afar illa og að ljóst sé að leggja þurfi allt að fjórum milljónum evra, rúmlega 730 milljónum króna, inn í það svo að rekstur þess fari ekki í þrot.

Þó sé ljóst „að stærstur hluti kröfunnar er glataður, og finnist ekki fjárfestar til að koma að verkefninu á næstu vikum er krafan að öllu leyti glötuð.“ Ekki liggur fyrir hversu háar upphæðir Milestone setti inn í rekstur vínekranna.

Vínekran hefur verið í söluferli um nokkurn tíma en fjárfestar hafa þó ekki sýnt henni mikinn áhuga. Þrotabú Milestone mun líklegast ekki setja fé inn í rekstur vínekru til að reyna að gera hana söluvænlegri. Því er líklegt að rekstur vínekrunnar verði settur í þrot ef ekki tekst að selja hana á næstunni.

Vínekran er staðsett í námunda við borgina Kumonovo, þriðju stærstu borg Makedóníu. Hún er líka heimaborg Stater Banka, sem Milestone áttu einnig.