Tap móðurfélags Milestone nam 13,4 milljörðum króna, eftir skatta, á fyrstu sex mánuðum ársins 2008. Tap samstæðunnar nemur 34,9 milljörðum króna.

Eigið fé á tímabilinu lækkaði um 14,9 milljaðra frá áramótum og nam eigið fé móðurfélagsins 69 milljörðum  þann 30. júní 2008. Eigið fé samstæðunnar í heild var 55 milljarðar.

Heildareignir móðurfélags voru 134 milljarðar en heildareignir samstæðu námu 513 milljörðum.

Milestone sérhæfir sig í fjárfestinum á fyrirtækjum á sviði fjármálaþjónustu.

Stærsta eign Milestone er sænska fjármálafyrirtækið Moderna en félagið er um 92% af heildareignum Milestone. Moderna tapaði 6,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Heildareignir Moderna námu 444 milljörðum við lok tímabilsins, eigið fé þess 59 milljarðar og eiginfjárhlutfall Moderna nam 13,2 prósentum. Eiginfjárgrunnur Moderna var 76 prósent umfram þau mörk er sænska fjármálaeftirlitið setur.

Í tilkynningu frá Milestone segir að félagið telji framtíðarhorfur fyrir Moderna á norrænum fjármálamarkaði góðar. Eftir niðurfærslu óskráðra eigna félagsins til samræmis við almennar lækkanir á skráðum eignum gefi reikningar Milestone skýra mynd af stöðu félagsins og getu þess til að mæta krefjandi markaðsaðstæðum. Áfram verði lögð áhersla á hagræðingu í rekstri og uppbyggingu á grunnrekstri Moderna.