Áhugi á ferðalögum innanlands hefur verið að aukast jafnt og þétt undanfarin ár, segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Félagið var stofnað árið 1927 en helsti hvatamaðurinn var Sveinn Björnsson sem síðar varð forseti Íslands.

Félagsmenn í Ferðafélaginu eru um átta þúsund talsins og greiðir hver þeirra árgjald sem nemur 6700 krónum. Í staðinn fær hver þeirra afhenda árbók sem komið hefur út síðastliðin 85 ár. Að auki fá þeir afslátt af ferðum á vegum Ferðafélagsins og af gistingu í skálum sem félagið rekur. Þeir eru hins vegar miklu fleiri en átta þúsund sem nýta þjónustu Ferðafélagsins, bæði ferðirnar og skálana. „Íslendingar koma að mestu, nánast eingöngu í ferðirnar, en útlendingar eru í meirihluta í skálunum. Bæði á eigin vegum og á vegum erlendra ferðaskrifstofa,“ segir Páll.

Hann nefnir sem dæmi að í sumar hafi um 70 – 80 þúsund manns komið í Landmannalaugar. Þar af séu útlendingar um 80% en stærstur hluti þess hóps stoppi bara við í skálanum í tvo til þrjá klukkutíma og greiði því ekkert fyrir heimsóknina. „Þarna er stór hópur sem greiðir ekki neitt og það er ákveðið innlegg í umræðuna um gjaldtöku á ferðamannastöðum,“ segir hann.

Páll segir að veðrið hafi mikil áhrif á áhuga Íslendinga á ferðum „Það var mjög vel bókað í vor og byrjun sumars. Síðan hefur veðrið áhrif á bókanir Íslendinga . Þeir spá í ferðir með styttri fyrirvara og horfa á veðrið fram í helgina. Þeir eru hreyfanlegri eftir því hvernig veðurspáin er,“ segir Páll. Erlendir ferðamenn geri áætlanir með lengri fyrirvara.

Páll segir augljóst að áhuginn á útivist sé sífellt að aukast og hafi aukist síðastliðin tíu ár. „Við vorum að skynja að hann væri að aukast en þetta  hefur sprungið út í að verða að tísku. Það eru mjög margir sem ferðast og fara í gönguferðir, mjög margir sem setja sér það að markmið að komast í eina stóra gönguferð á sumri í það minnsta,“ segir Páll. Sem dæmi um aukinn áhuga á göngum nefnir Páll að fyrir tíu árum hafi um 4000 manns ritað nafn sitt í gestabók á Esju. Þetta sumarið séu þeir líklegast um 20 þúsund.