Millibankavextir í London (LIBOR) hafa lækkað um 17 punkta í dag, og standa í 2,86%.

Hafa þeir ekki verið lægri síðan Lehman Brothers féll þann 15.september.

Daglánavextir lækkuðu einnig um 2 punkta, niður í 0,39%.

Þetta kemur fram á fréttavef Bloomberg og segir þar að skýringuna megi finna í því að markaðsaðilar geri ráð fyrir því að vextir í Evrópu verði lækkaðir, líkt og gert hefur verið í Asíu, til að losa um fjármagn og takmarka þær skemmdir sem alheimskreppa leiðir til.

Því er spáð að Evrópski Seðlabankinn og Englandsbanki lækki viðmiðunarvexti um 50 punkta þann 6.nóvember.

Þá spá hagfræðingar því að Seðlabanki Ástralíu muni lækka daglánavexti um 50 punkta á morgun. Þá lækkaði Seðlabanki Indlands stýrivexti fyrir tveimur dögum í annað sinn á tveimur vikum.