Þýski bankinn Deutsche Bank millifærði fyrir mistök 6 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 753 milljarða króna, inn á vörslureikning hjá viðskiptvini vogunarsjóðs. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Mistökin má rekja til þess að sá sem var ábyrgur fyrir viðskiptunum var í fríi og sá sem sá um þau misskildi fyrirmæli þess fyrrnefnda. Í stað þess að millifæra hagnað af gjaldeyrissamningi var heildarfjárhæð samningsins millifærð.

Mistökin voru leiðrétt sólarhring síðar sem er langur tími í huga áhættustýringar í banka.

Í fréttinni kemur fram að upplýsingakerfi þýska bankans séu ekki nógu góð og of mikið sé treyst á mannshöndina og hugann færslur eins og þessar. Algeng sé að villur komi upp, en alls ekki á þessari stærðargráðu.