Deutsche Bank millifærði óvart 28 milljarða evra á greiðslujöfnunarfélagið (e. clearing house) Eurex Clearing en það nemur 3.461 milljarði íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Flestir bankar og fjármálafyrirtæki reiða sig á þjónustu Eurex þegar kemur að áhættuvörnum fyrir fjárfestingar í afleiðusamningum. Við millifærsluna jókst það fé sem Eurex hefur undir höndum sem veð fyrir afleiðusamningum um meira en helming eða 55%. Í lok ársins 2017 var félagið með 51,3 milljarða evra í sínum höndum sem veð gegn afleiðusamningum fjármálastofnana.

Eurex Clearing millifærði þó nær samstundis megnið að upphæðinni eða 24 milljarða evra aftur til baka á Deutsche Bank. Afgangurinn, 4 milljarðar evra, var svo millifærður nokkrum dögum síðar.