Húsleitir og yfirheyrslur hjá Seðlabanka Íslands snúa að ákveðnum millifærslum útaf reikningi Landsbankans hjá Seðlabanka Íslands 6. október 2008, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það er sama dag Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, tilkynnti um það í sjónvarpsávarpi að neyðarlög yrðu sett á Íslandi til þess að verja almannahagsmuni fyrir falli bankanna.

Aðgerðir embættis sérstaks saksóknara eru hluti af rannsókn þess á ætluðum brotum sem framin voru í Landsbanka Íslands fyrir bankahrun. Í tengslum við þá rannsókn hefur embættið framkvæmt húsleitir og lagt hald á gögn hjá ýmsum fjármálastofnunum.

Meðal annars var leitað hjá MP banka og ALMC, áður Straumi, í morgun. A.m.k. fjórir hafa verið handteknir í dag. Von er á tilkynningu frá sérstökum saksóknara þegar líður á daginn.