Samdráttur var á innlendum markaði á þriðja ársfjórðungi Icelandair Group. Hlutur svokallaðs „via“-flugs fer vaxandi í reikningum félagsins og er nú um helmingur. Það er flug með viðkomu á Íslandi. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, sagði á kynningu uppgjörsins í dag að eldsneytisverð væri í takt við áætlanir en þó hátt og að reiknað væri með því að það færi hækkandi. Hann sagði jafnframt að annar áhættuþáttur í starfseminni væri óróleiki í efnahagslífinu og það sýndi sig í samdrætti í Suður Evrópu.

Félagið hagnaðist um 51,4 milljónir dala á tímabilinu en það er jafnvirði 6.858 milljóna króna. Greiningaraðilar sem Viðskiptablaðið ræddi við eftir birtingu uppgjörsins í gær sögðu niðurstöðuna fljótt á litið góða og í takti við spár. Tekjur Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi námu 317,3 milljónum dala og jukust um 8% á milli ára. Aðspurður sagði Björgólfur að miðað við arðreiðslustefnu félagsins væri útlit fyrir að arður yrði greiddur á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.