Milliríkjaviðskipti hafa dregist hratt saman í heiminum . Þetta er óvenjuleg þróun, jafnvel í kreppu, og mun gera löndum heims erfiðara en ella að komast út úr niðursveiflunni.

Vöxtur í milliríkjaviðskiptum hefur yfirleitt dregist saman þegar samdráttur er í efnahagslífinu en samt er óalgengt að milliríkjaviðskipti dragist saman á milli ára. Síðast gerðist það árið 1982 en Alþjóðabankinn spáði því í desember að samdrátturinn yrði 2,1% á þessu ári. Gangi það eftir yrði það mesti samdráttur frá síðari heimsstyrjöldinni, jafnvel meiri en árið 1975 þegar hann nam 1,9%. Þetta kemur fram í WSJ í dag.

BNA: 18% fall í milliríkjaviðskiptum

Samanlagður útflutningur og innflutningur í Bandaríkjunum, stærsta hagkerfi heimsins, féll um 18% á tímabilinu frá júlí til nóvember sl.

Útflutningur í Japan féll um 27% í nóvember, sem er mesta fall frá upphafi, og innflutningur féll um 14%. Í Kína minnkuðu milliríkjaviðskipti í desember meira en þau hafa gert í áratug.

Samdráttur í útflutningi Þýskalands á milli ára nam 12% í nóvember og hefur ekki verið meiri á þessum áratug. Þýskaland er stærsta hagkerfi Evrópusambandsins, en milliríkjaviðskipti næstu þriggja hagkerfa að stærð féllu næstum jafn mikið.

Aldrei séð annað eins

WSJ hefur eftir Don Brasher, stofnanda og eiganda Global Trade Information Services í Genf, að hann búist við að niðursveiflan í heimsviðskiptum haldi áfram í að minnsta kosti sex mánuði. Hann hefur rekið fyrirtæki sitt í 15 ár og segist aldrei hafa séð annað eins.