Bakkavör tilkynnti í dag að fjármálastjóri Geest og einn af framkvæmdastjórum þess muni láta af störfum á árinu. Ástæðan er sögð tengjast afskráningu félagsins úr Kauphöllinni í London þar sem þessir tveir stjórnendur hafa sérhæft sig í stjórnun skráðra félaga.

Greining Íslandsbanka telur hins vegar sennilegt að ástæðan sé ekki eingöngu bundin við afskráninguna. Við yfirtöku sem þessa megi búast við því að hluti stjórnenda kjósi að láta af störfum. Stjórnendur Bakkavarar hafi hins vegar tekið skýrt fram að þeir leggi mikla áherslu á að halda öllum helstu stjórnendum Geest áfram hjá félaginu. Þessir tveir stjórnendur bætast hins vegar í hóp tveggja millistjórnenda sem sögðu upp fyrr í mánuðinum.