Fjárhagsstaða stærstu útgerða landsins hefur batnað verulega við það að taka upp evru eða dollara sem uppgjörsmynt og sums staðar hefur eiginfjárstaðan farið úr því að vera neikvæð yfir í jákvæða stöðu.

Breyting stærstu útgerða landsins á uppgjörsmynt úr krónum yfir í evrur eða Bandaríkjadal hefur haft gríðarleg áhrif á eiginfjárstöðu félaganna. Fram kom í Viðskiptablaðinu 8. júlí sl. að átta af tíu stærstu útgerðum landsins hafa breytt um uppgjörsmynt til þess að endurspegla betur tekjur, gjöld og fjármögnun, sem eru að stórum hluta í erlendum gjaldmiðlum, og forðast þær gríðarlegu sveiflur sem krónan hefur á rekstur og efnahag félaganna.

Átta milljarða áhrif hjá Samherja

Samherji breytti um starfrækslugjaldmiðil í ársbyrjun 2009 og hóf að færa bókhald sitt í evrum. Fastafjármunir félagsins, s.s. aflaheimildir, fasteignir og skip, voru þannig umreiknaðir í evrur í samræmi við upphaflegt kaupgengi þeirra. Ekki lá fyrir hver áhrif breytinganna yrðu í ársreikningi fyrir árið 2008 en stjórnendur félagsins áætluðu að færslan hefði haft jákvæð áhrif upp á átta milljarða króna.

HB Grandi, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins mælt í þorskígildistonnum, breytti um uppgjörsmynt í ársbyrjun 2008, áður en krónan tók að falla. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 45% um síðustu áramót en hefði verið 13% í krónuuppgjöri. Staða Samherja og HB Granda var með þeim hætti í árslok 2008 að eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna var jákvætt.

Það sama var ekki sagt um mörg önnur stór útgerðarfélög sem sáu skuldir hækka umfram eignir í hafrótinu 2008 og reyndar ríkti töluverð óvissa um rekstrarhæfi sumra þeirra vegna bankahrunsins eins kom fram í athugasemdum í ársreikningum fyrir árið 2008.

-Nánar í Viðskiptablaðinu