Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segir OR ekki hafa getað annað en átt aðkomu að mikilli uppbyggingu nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu á "góðæristímanum". Í mörgum tilfellum hefur OR litlar sem engar tekjur úr þessum hverfum þrátt fyrir tugmilljarðaframkvæmdir. Reiknað er með því að þær borgi sig til baka á löngum tíma, eða 20 til 50 árum.

[Spurning blaðamanns] Mikið framkvæmdaskeið hjá OR var fjármagnað með erlendum lánum. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort OR hafi ekki farið of geyst í framkvæmdum á "góðæristímanum" og fjárfest með of áhættumiklum hætti. Telur þú að svo hafi verið?

"Til þess að svara þessu með vel undirbyggðu svari þarf að skoða málið  í samhengi. Það hefur verið mikil uppbygging á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum sem sveitarfélögin, Reykjavíkurborg, Kópavogur, Hafnarfjörður og fleiri sveitarfélög, hafa staðið fyrir. Stór ný íbúahverfi hafa verið byggð. OR hefur mikla aðkomu að  þessum verkefnum sem grunnaðili í þjónstu vegna fráveitu, hitaveitu og vatnsveitu. Þessi verkefni kosta gífurlega mikla fjármuni. Tugi milljarða þegar á heildina er litið. Þetta eru hins vegar fjárfestingar sem borga sig til baka á 20 til 50 árum. Þessar framkvæmdir voru fjármagnaðar með lántökum að megninu til. Þessu til viðbótar verður að horfa til þess, að stóriðjuverkefni sem hér er verið að byggja upp hafa ekki dottið af himnum ofan. OR hefur lagt í miklu vinnu til þess að útvega orku í þau verkefni og þar stöndum við í stórræðum enn þann dag í dag. OR hefur einfaldlega fylgt stækkuninni á starfssvæði fyrirtækisins."

[Spurning blaðamanns] En hefðu ekki varúðarbjöllur átt að klingja innan OR vegna þessara miklu fasteignaverkefna? Nú er svo komið að fjárfestingar OR skila ekki neinum tekjum í mörgum tómum hverfum og húsum. Hefði OR ekki átt að spyrna við fótum og óska eftir gögnum um þörfina fyrir þessum miklu framkvæmdum innan sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu?

"Það voru auðvitað viðvörunarbjöllur klingjandi alls staðar, ef þannig má að orði komast. Þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir. Á sínum tíma voru þetta verkefni sem OR var talið nógu sterkt til þess að geta fylgt eftir og taka þátt í. Það þótti sjálfsagður hluti af starfsemi fyrirtækisins. Þar var auðvitað horft til gríðarlega sterkrar stöðu, ekki síst árið 2007. Það ár var farið í miklar framkvæmdir. Svo voru túrbínur frá Mitsubishi keyptar í virkjanir fyrir um 30 til 35 milljarða króna. Það gat hins vegar enginn séð fyrir 6. október 2008. Hrun gjaldmiðils og bankakerfis er nokkuð sem enginn reiknaði með."

[Spurning blaðamanns] En skuldir fyrirtækisins voru með mikla innbyggða gengisáhættu fyrir fyrirtækið, þar sem skuldirnar voru að langmestu leyti í erlendri mynt en tekjur að 80% leyti í krónum. Veiking krónunnar gat því haft alvarleg áhrif á efnahag fyrirtækisins. Hefði ekki einmitt átt að reikna með þeim möguleika, að krónan gæti veikst skarplega?

"Það reiknuðu allir með því að krónan myndi veikjast. Vandamálið var ekki síst það í þessum málum að það var nánast ómögulegt að fá krónur að láni til þess að fara út í framkvæmdir. Það var alls ekki möguleiki þegar kom að stórum framkvæmdum vegna þess að vaxtastigið á krónulánum var alltof hátt. Lánin voru mjög óhagstæð og hafa í raun verið lengi. Lánin í erlendri mynt höfðu þann skýra kost að vera miklu ódýrari heldur en krónulánin og ég tel það hafa verið hárrétt, og raun það eina rétta, að taka erlendar myntir að láni frekar en krónur. Vaxtastigið á þeim lánum var miklu hagstæðara. Eitt af helstu vandamálum Íslendinga er auðvitað þessi blessaða króna okkar. Hún er alltof dýr og hreinlega ónothæf þegar kemur að fjármögnun stórra framkvæmda. Mér finnst það auk þess mikið umhugsunarefni þegar fjármálaráðherra lýsir kostum krónunnar með því að hún tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum. Þetta er ekki staða sem hægt er að monta sig af. Með þessu er verið að segja að lág laun fyrir fólkið í landinu séu eftirsóknarverð. Með tímanum getur þessi sýn dregið mjög úr samkeppnishæfni landsins og í raun stórskaðað lífskjör í landinu. Því tel ég brýnt að annar gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu, horft til framtíðar. Hins vegar finnst mér margir of svartsýnir á stöðu efnahagsmála í landinu. Ísland á ríkar auðlindir og mun ná vopnum sínum. Það eru allar forsendur fyrir því að það sé hægt að á skömmum tíma, tel ég."

Ítarlegt viðtal er við Guðlaug Sverrisson, stjórnarformann OR, í Viðskiptablaði sem kom út í gær.