Áform eru um að framkvæmdir við heilsuhótel í Ölfusborgum verði ýtt úr vör á þessu ári segir í frétt fréttavefsins Sudurland.is. Nýtt hlutafélag kringum verkefnið, Heilsuþorpið Ölfusi ehf., var nýverið stofnað af Knúti Bruun, lögmanni, Helga Hjálmarssyni, arkitekt, og Hálfdáni Kristjánssyni, viðskiptafræðing.

Samkvæmt heimildum Sudurland.is á félagið nú í viðræðum við fjársterka aðila. Síðar í vor verður síðan skorið úr um hvort ráðist verði í framkvæmdirnar sem velta á nokkrum milljörðum.

Fyrir fimm árum fékk Knútur Bruun, stjórnarformaður í félaginu, úthlutað landi í Ölfusborgum við Hveragerði með þeim skilmálum að hefja þar framkvæmdir á fyrirhuguðu heilsuhóteli innan ársins 2008. Framkvæmdirnar drógust hins vegar á langinn því fjárfestar sýndu verkefninu ekki nægan áhuga. Á þeim tíma var hugmyndin sú að byggja 3 ? 400 herbergja heilsuhótel sem kostaði á bilinu 5 ? 6 milljarða.

Hið nýstofnaða hlutfélag endurskoðar nú fyrri áform með það að leiðarljósi að draga úr kostnaði og þar af leiðandi umfangi heilsuhótelsins. Er það gert í samráði við bæjaryfirvöld í Ölfusi og Hveragerði og jafnframt Landbúnaðarráðuneytið sem fer með landið í umboði ríkisins.