Útlendingar fengu í gær 5,5 milljarða króna í hendurnar sem eru vaxtagreiðslur af ríkisskuldabréfum sem voru á gjalddaga. Samtals voru um 70 milljarðar króna á gjalddaga sem útlendingarnir hafa þurft að endurfjárfesta fyrir; annað hvort með því að kaupa verðtryggð eða óverðtryggð ríkistryggð skuldabréf eða leggja inn á innlánsreikning í bönkum.

40 milljarða króna skuldabréfavelta

Mikil velta á skuldabréfamarkaði í gær og í dag, samtals um 40 milljarðar króna, bendir til þess að þessir erlendu aðilar hafi helst keypt ríkisskuldabréf. Eitthvað hefur verið keypt af verðbréfum síðastliðnar vikur þar sem fyrir lá að gjalddaginn var í gær. Menn hlaupa ekki til samdægurs og fjárfesta fyrir andvirði skuldabréfanna eða vaxtanna.

Hins vegar hélst gengi krónunnar stöðugt þannig að vaxtagreiðslan setti ekki þrýsting á hana. Bæði er gjaldeyrismarkaðurinn sagður hafa dýpkað og eins leysa bankarnir þessi mál innanhúss, það er skipta krónum í gjaldeyri án þess að sækja peningana á millibankamarkað með gjaldeyri svo lengi sem ekki er um verulegar fjárhæðir að ræða.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri benti líka á það á fundi Seðlabankans í gær, þegar stýrivaxtaákvörðun bankans var kynnt, að þessir fjárfestar hefðu sex mánuði til að taka peningana úr landi samkvæmt gjaldeyrisreglunum.

Endurfjárfesta á Íslandi

Fram kom hjá Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að stærsti hluti vaxtagreiðslna til útlendinga á þessu ári félli til í þessum mánuði. Reynslan frá fyrra ári sýni að þeir færi aðeins hluta af vaxtagreiðslunum til útlanda. Afganginn nota þeir til endurfjárfestinga enda vaxtastig hér með því hæsta sem gerist í vestrænum ríkjum.

Þá áhættu eru þessir útlendingar tilbúnir að taka þrátt fyrir alla umræðu um greiðsluhæfi ríkisins og hátt skuldatryggingarálag. Háir vextir eru verðlaunin fyrir að geyma peningana á Íslandi. Á móti benda sérfræðingar sem Viðskiptablaðið talaði við á að Seðlabankinn sé að viðhalda hér vaxtamunaviðskiptum sem voru þekkt fyrir bankahrun þar sem háir stýrivextir löðuðu erlent fjármagn til landsins og kynti þannig undir þenslunni.

Már sagði að í fyrra voru um 4,5 milljarðar króna greiddir í vexti til erlendra aðila. Af þeim hefðu um 2 milljarðar farið úr landi. Það gæfi vísbendingar um að allt að 60% af þessum peningum væri áfram haldið inni í landinu. Það beri að hafa í huga þegar spáð er í hversu mikið af þessum 5,5 milljörðum fari úr landi með tilheyrandi áhrifum á krónuna.