Frank Sands, framkvæmdastjóri Flugþjónustunnar ehf. á Reykjavíkurflugvelli, segir að mjög hafi færst í vöxt að íslensk fyrirtæki og forstjórar þeirra sinni sínum erindum til útlanda á einkaþotum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru íslensk fyrirtæki og auðmenn að greiða hundruð milljóna eða milljarða króna fyrir slíka þjónustu á hverju ári.

Það er fyrst og fremst hagræði og tímasparnaður sem nefnt er þegar viðskiptamenn velja það að fljúga með einkaþotum. Menn sleppa við bið á flugvöllum og geta valið flugvelli og tíma sem best hentar hverju sinni. Fyrir þetta þarf þó að greiða og að sumum finnst -- ansi dýru verði.

Tæplega 1.200 vélar nutu þjónustu Flugþjónustunnar á síðasta ári. Þar á bæ er búist við 20% aukningu á þessu ári. Stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins er NetJets í Portúgal þar sem fullyrt er að íslenskir auðmenn hafi keypt sér hluti í flugvélum. Félagið er hér minnst með eina vél að meðaltali á dag. Þetta þýðir 365 til 400 lendingar og 365 til 400 flugtök þessa eina þotufyrirtækis í Reykjavík á ári eða 730 til 800 hreyfingar.

Ítarleg fréttaskýring birtist í Viðskiptablaðinu í dag.