Rúmir fimm milljarðar króna sem settir voru inn í NTH í reiðufé, runnu samstundis aftur út til FL Group og Fons. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum milli stjórnenda FL Group, Pálma Haraldssonar og framkvæmdastjóra Sunds. Ekkert eiginlegt reiðufé var því eftir inni í NTH til að reka félagið.

Viðskiptablaðið hefur gefið út 14 blaðsíðna sérblað með greinarflokki blaðsins um NTH-viðskiptafléttu FL Group og Fons. Blaðið er aðgengilegt áskrifendum á vb.is.

Hlutirnir gerðust hratt

Í kjölfar þess að stjórn FL Group hafði afgreitt stofnun NTH og sölu Sterling til hins nýstofnaða félags á stjórnarfundi þremur dögum fyrir jólahátíðina 2006 gerðust hlutirnir hratt.

Næstu daga unnu allir hlutaðeigandi baki brotnu við að ganga frá stofnun NTH í tíma, enda nauðsynlegt að kynna viðskiptin áður en árið væri á enda til að losna við hina óæskilegu eign, Sterling, út af efnahagsreikningi FL Group og tryggja að Pálmi þyrfti ekki að endurgreiða almenningshlutafélaginu 5,6 milljarða króna.

Í upphaflegum drögum að „Project Scantravel“ var ekki ljóst hver þriðji aðilinn ætti að vera sem myndi eiga í NTH. Þar var sá aðili iðulega kallaður aðili „X“.

Aðili „X“ verður Sund

Samkvæmt tölvupóstsamskiptum milli æðstu manna FL Group sem áttu sér stað að kvöldi 26. desember 2006 var á þeim tíma orðið ljóst að sá þriðji aðili var eignarhaldsfélagið Sund ehf., sem hélt utan um fjárfestingar afkomenda Óla Kr. Sigurðssonar sem oftast var kenndur við Olís. Félaginu hefur á undanförnum árum aðallega verið stýrt af Jóni Kristjánssyni, stjúpsyni Óla, og mági hans Páli Þór Magnússyni.

Daginn eftir, þann 27. desember, var send tilkynning til íslensku Kauphallarinnar um sölu FL Group á Sterling til hins nýstofnaða NTH.

-------

Greinarflokkurinn byggir á gögnum sem voru afrituð í ítarlegri húsleit sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra framkvæmdu í höfuðstöðvum FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir, þann 11. nóvember 2008. Þar var lagt hald á ýmiskonar bókhaldsgögn, kaupsamninga, viðskiptaáætlanir, samkomulög og aragrúi tölvupóstsamskipta afrituð. Um er að ræða hundruð blaðsíðna af trúnaðargögnum.

Greinarnar birtust í þremur hlutum í Viðskiptablaðinu í september.

Áskrifendur geta nálgast sérblaðið hér . Hægt er að gerast áskrifandi að Viðskiptablaðinu hér .