Knattspyrnufélag Reykjavíkur hyggst útvíkka starfsemi sína svo um munar í Vesturbænum. Allsherjar íþrótta- og tómstundamiðstöð er fyrirhuguð á reit félagsins samhliða byggingu á nýjum og stærri heimavelli. Pétur Marteinsson, verkefnastjóri hjá KR, segir að aðstaða félagsins hafi fyrir löngu sprengt utan af sér. Því hafi félagið lagst í ítarlega könnun á því hvað væri hægt að gera í þeim málum.

„KR er náttúrlega stórt félag með ríka sögu og ellefu deildir mismunandi íþrótta. Hér er ákveðin stefna viðhöfð þar sem er tekið á móti öllum, en einnig er ákveðin elítuáhersla hjá okkur. Þó hefur það atvikast þannig á síðustu árum að síðari áherslan hafi orðið ofan á, eða öllu heldur upplifir fólk félagið þannig.“

Ekki liggur fyrir hversu marga áhorfendur nýi völlurinn mun rúma. Pétur segir þó að miðað sé við töluna 5.000. Einhver mótmæli hafi heyrst frá íbúum í nærliggjandi húsum, en hann segir endanlega niðurstöðu ekki liggja fyrir.

Pétur segir aðstöðu þess vegna skipta máli til að fá sem flesta til liðs við félagið: „Þegar við sóttumst eftir að fá Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Lýðheilsustöð og heilbrigðisyfirvöld í lið með okkur kom í ljós að verkefnið þurfti að vera stærra en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Því varð sú hugmynd ofan á að byggja á reitnum okkar þjónustu- og fjölskyldumiðstöð í kringum nýjan knattspyrnuvöll [innsk. blaðamanns: Reiturinn sem knattspyrnuvellir og byggingar KR standa á í dag eru að fullu í eigu félagsins sjálfs].

Í þessu myndi rúmast tómstundamiðstöð fyrir börn og unglinga. Einnig eru uppi hugmyndir um að hafa heilsugæslustöð, sjúkraþjálfun og endurhæfingarmiðstöð á svæðinu.

________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .