Mosfellsbær, PrimaCare ehf. og Ístak hf. rita í dag undir viljayfirlýsingu um byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ sem mun sérhæfa sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum fyrir útlendinga. Um er að ræða allt að 20-30 þúsund fermetra byggingar og munu skapast 600-1000 störf í bæjarfélaginu. Í tilkynningu segir að gert sé ráð fyrir að verkefnið kosti 13-20 milljarða króna en fjármögnun þess er í höndum svissnesks fjármögnunarfyrirtækis, Oppenheimer Investments AG.

Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að fyrstu sjúklingarnir verði komi til aðgerða í árslok 2011   “Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikil lyftistöng þetta verkefni verður fyrir samfélagið hér í Mosfellsbæ og nágrenni. Ekki einungis munu skapast hér 600-1000 störf á einu bretti heldur mun verkefnið hafa gífurleg áhrif vegna afleiddrar þjónustu sem af því skapast, jafnt vegna starfsfólks á sjúkrahúsinu og þeim sjúklingum og gestum sem þangað koma,” segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. “Við gerum okkur til að mynda vonir um að hluti starfsfólksins kjósi að setjast að hér í okkar góða bæjarfélagi með öllum þeim kostum sem því fylgja.” Íslandsbanki veitir ráðgjöf

Unnið er að stofnun Heilsufélags Mosfellsbæjar sem hafa mun það að markmiði að byggja upp þjónustu á sviði heilbrigðismála í bæjarfélaginu. Stefnt er að því að félagið fjárfesti í verkefni PrimaCare og hefur Íslandsbanki veitt ráðgjöf um stofnun þess.   Að sögn Gunnars eru næstu skref þau að koma verkefninu í þann búning að hægt verði að hefja vinnu við fjármögnun. Stefnt er að því að það gerist á næstu vikum og að fjármögnun verði lokið 30. apríl 2010. Fyrsta skóflustungan yrði þá tekin fljótlega að því loknu.   Aðild Ístaks að verkefninu felst í því að fyrirtækið hefur látið PrimaCare í té lóð við Köldukvíslargljúfur við Tungumela í Mosfellsbæ og mun jafnframt koma að byggingu sjúkrahússins í samvinnu við alþjóðlega byggingaverktakann Skanska, sem hefur yfirumsjón með verkinu.   Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks segir: “Ég er ánægður með að fá að taka þátt í þessu stóra verkefni, ekki síst þegar ljóst er að því hefur verið valinn staður í Mosfellsbæ. Lóðin sem við látum undir starfsemina er vel til þess fallin að þar verði byggð upp starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu enda umhverfið með eindæmum fallegt og stutt í náttúruna.”   “Ístak er leiðandi fyrirtæki á íslenskum verktakamarkaði og vel í stakk búið að taka þátt í jafn metnaðarfullu verkefni,” segir Loftur jafnframt.