365, sem er nær alfarið í eigu Ingibjargar Stefnaíu Pálmadóttur fjárfestis, keypti verslunarhúsnæðið sem áður hýsti Super1 að Faxafeni 14 á síðasta ári. Húsnæðið var í eigu Ísborga, rekstrarfélags Super1. Ísborgir eru í eigu Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar, sonar Ingibjargar.

Ísborgir keyptu þrjár Bónus verslanir af Högum sem hluta af sátt Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Haga á Olís árið 2018. Í kjölfarið opnaði Sigurður Pálmi nýjar verslanir undir merkjum Super1. Þeim hefur öllum verið lokað en verslun Super1 í Faxafeni var opin í þrjá mánuði. Þar má nú finna Veganbúðina. Festi keypti eina verslun Super1 á Hallveigarstíg þar sem opna á Krónuverslun. Ísborgir töpuðu 83 milljónum króna árið 2019. Þar af nam tap af rekstri verslananna 173 milljónum króna en söluhagnaður fasteigna upp á 114 milljónir króna vó á móti taprekstrinum.

Bónus hafði áður rekið verslun í Faxafeni 14 frá því að feðgarnir Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, og Jóhannes Jónsson, opnuðu aðra Bónusverslunina þar sumarið 1989.

Meðal annarra fasteignakaupa 365 á síðasta ári er 4.800 fermetra skrifstofuhúsnæði við Urðarhvarf 14 í Kópavogi sem hýsir meðal annars heilsugæslustöð og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni. Félagið greiddi um 1,5 milljarða króna fyrir fasteignina.

Fimm þúsund fermetrar við Hverfisögtu

Atvinnuhúsnæði í eigu félaga sem tengjast Ingibjörgu telja nú um 12 þúsund fermetra hið minnsta og eru metin á yfir 6,5 milljarða króna auk þess að 365 á um 8,2% hlut í fasteignaþróunarfélaginu Kaldalóni sem vinnur að byggingu um þúsund íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Stærstur hluti fasteignafélaga í eigu Ingibjargar er neðst á Hverfisgötu. Húsalengjan á milli Stjórnarráðsins og bílastæðakjallarans til móts við Þjóðleikhúsið er að mestu í eigu Ingibjargar.  Alls er þetta yfir 5 þúsund fermetrar húsnæði sem metið er á ríflega fjóra milljarða króna.

Þar á meðal er þúsund fermetra skrifstofubygging við Hverfisgötu 4-6 sem metin er hátt í 700 milljónir króna, hótelbygging 101 Hótel, sem Ingibjörg á einnig, sem er um ríflega 2.000 fermetrar og er metin á um 1,9 milljarða króna í ársreikningi IP Studium ehf. Þá á 365 einnig húsnæðið við Hverfisgötu 12, þar sem veitingastaðurinn Kastrup var síðast til húsa og áður mátti finna Dill og nafnlausa pítsastaðinn, auk Hverfisgötu 18 þar sem finna má húsgagnaverslunarinna Norr11 og vínbarinn Mikka ref. 365 á helmingshlut í félaginu Norr11 Holding Aps í Danmörku sem metið er á tæplega 166 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .