Með því að fá alþjóðlega gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere til liðs við Borealis Data Center, nú Etix Everywhere Borealis, hefur félagið ráðið tugi manns í milljarðauppbyggingu á gagnaverum á Fitjum og Blönduósi.

„Þetta er fjárfesting upp á milljarða íslenskra króna. Við reiknum með að heildarfjöldi tölva verði um 30 þúsund eftir þessa stækkun, en nýju verin eru svokölluð „High Performance Computing“ ver, þar sem er mjög mikil reiknivinnsla fyrir hendi,“ segir Björn Brynjúlfsson framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis sem varð til við fjárfestingu félagsins í íslenska félaginu sem heitr nú Etix Everywhere Borealis.

„Við erum að byggja upp í tveimur fösum á Fitjum en þar erum við að klára fyrri fasann á næstu fjórum vikum en samanlagt verða þetta um 1.000 fermetrar undir tölvubúnað. Samhliða því erum við að vinna að seinni fasanum þar sem við verðum með til við viðbótar við gagnaversaðstöðuna sjálfa, skrifstofu og starfsmannarými og fundaraðstöðu en þar munu um tíu manns starfa. Síðan er mikil aðkeypt þjónusta í svona starfsemi, bæði helstu íslensku tæknifyrirtækin, yfir í rafvirkja með sérfræðiþekkingu sem og fjarskiptafyrirtækin og önnur þjónustufyrirtæki.

Á Blönduósi erum við með um 50 manns við uppbygginguna þar í nokkrum byggingum sem verða um 700 fermetrar hvert. Við erum nú að koma upp húsi tvö sem verður líka tilbúið eftir um mánuð en þar erum við einnig byrjuð á þriðja húsinu sem verður tilbúið öðru hvoru megin við áramótin. Auk þess höfum við mikinn áhuga á að byggja upp viðhaldsvinnu og annað í kringum svona rekstur fyrir norðan sem myndi þýða að starfsmannafjöldinn þar yrði meiri en ella, sem gæti verið allt að helmingur þess fjölda sem nú vinnur við uppbygginguna.“

Fjárfestu þó ekki yrði af verkefni

Nýja félagið er að 55% í eigu erlenda fyrirtækisins, en það er með höfuðstöðvar sínar í Lúxemborg. Það er að stórum hluta í eigu japanska bankans SBI Holdings. Íslenska félagið hefur verið í rekstri síðan árið 2014. Samkvæmt síðasta ársreikningi fyrir árið 2017, áður en nýtt hlutafé Etix Everywhere kom inn í félagið, var það að 64,25% í eigu Brú Venture Capital, 15% í eigu Impulse ehf., Íslenskt hugvit ehf. átti 12%, Jón Birgir Jónsson átti 9%, Árni Jensen átti 7,28%, framkvæmdastjórinn Björn Brynjúlfsson átti 2,65% en aðrir hluthafar minna.

„Forsagan að tilkomu Etix Everywhere inn í félagið var að við höfum verið að vinna að sölu og markaðsstarfi á gagnaverinu okkar á Ásbrú og í gegnum það kynntumst við Etix og vorum að vinna með þeim að einu tilteknu verkefni sem ekki varð af. En í framhaldinu vildu þeir fjárfesta í okkur og hafa þar með góðan aðila hér á landi til að vinna með sem þeir líta á sem réttu leiðina til að ná árangri. Þeir komu með nýtt fjármagn inn í félagið sem er verið að nýta í þessa uppbyggingu ásamt annarri fjármögnun,“ segir Björn.

„Fyrir okkur þýðir það að vinna með alþjóðlegu gagnaversfyrirtæki að við erum að komast í sterkt samband við sérfræðinga í að byggja og reka gagnaver sem gera það út um allan heim. Þannig erum við núna rekstrarlega komin með mjög sterkt bakland, bæði þekkingarlega og getulega. Þetta hefur einnig mikla þýðingu fyrir okkur í söluog markaðsstarfi, enda allir okkar viðskiptavinir erlendir, en þeir reka söluskrifstofur út um allan heim.

Við verðum áfram með a.m.k. tvo til þrjá hér á landi í að selja aðgang að gagnaverum félagsins, og munu starfsmennirnir vinna með alþjóðlegu sölu- og markaðssérfræðingum Etix Everywhere. Félagið rekur nú auk gagnavera á Norðurlöndum og Evrópu, gagnaver í Gana í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu, svo það er mjög dreift og í örum vexti inn á marga mismunandi markaði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .