Í gær var greint frá því að Bakkavararbræður, ásamt félagi í eigu bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá The Baupost Group L.L.C.  hefðu náð samningum um kaup á 46% hlut í félaginu Bakkavor Group af BG12 slhf. Stærstu eigendur BG12 eru Arion banki, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi - lífeyrissjóður ásamt fleiri lífeyrissjóðum og fagfjárfestum.

Hagnaður Arion banka og lífeyrissjóðanna af þessu gæti numið milljörðum króna. Söluverðið var alls um 27,5 milljarðar króna.

Lífeyrissjóður verslunarmanna átti 15% hlut og fær hann því 4,1 milljarð, en bókfært verðmæti hlutarins var 1,4 milljarðar. Hlutur Gildis var 11,6% og fær hann því 3,2 milljarða, en bókfært verðmæti nemur 1,1 milljarð. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Arion banki átti 62% í BG12 og fær hann því 17 milljarða í sinn hlut, ekki var gefið upp hvað Arion bókfærði verðmæti hlutarins á.