Íslenskir fjárfestar sem áttu hluti i Advania og gagnavarsfélaginu atNorth högnuðust ríkulega á sölu fyrirtækjanna á síðasta ári. Áætla má að Advania, sem sjóðir Goldman Sachs keyptu meirihlutan í og atNorth sem selt var til vissneska fjárfestingafélagsins Partners Group hafi samanlagt verið verðmetin á um 100 milljarða króna. Advania og atNorth (sem upphaflega hét Advania Data Centers) voru aðskilin árið 2017, en voru að stórum hluta í eigu sama eigendahóps.

Advania var metið á um 60 milljarða við kaup Goldman Sachs líkt og Viðskiptablaðið greindi frá en félagið var fyrir það í eigu fjárfesta frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Íslandi sem margir hverjir eru áfram í hluthafahópnum. Áætla má að atNorth hafi í heild verið metið á yfir 40 milljarða íslenskra króna við söluna til Partners Group.

Sænska fjárfestingafélagið Aechora Invest AB, sem er leitt af Gesti G. Gestssyni, stjórnarformanni Advania, hagnaðist um 367 milljónir sænskra króna á síðasta ári, jafnvirði um 5,4 milljarða íslenskra króna. Aechora fór með 9% hlut í Advania í ársbyrjun 2021 og þá kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2021 að það hafi eignast 12,6% hlut í atNorth á árinu eftir samruna við tengd félög.

Gungnir ehf., sem heyrir undir Bull Hill Capital, fjárfestingafélag Aðalsteins Gunnars Jóhannssonar, hagnaðist um 2,6 milljarða króna á síðasta ári. Gugnir fór með ríflega 6% hlut í atNorth. Bull Hill fór með ríflega 5% hlut í Advania fyrir söluna til Goldman Sachs en á nú 1,1% hlut í móðurfélagi Advania sem bókfærður er á rúmlega 700 milljónir króna.

Drekahraun ehf., félag Eyjólfs Magnúsar Kristinssonar, forstjóra atNorth, hagnaðist um 334 milljónir íslenskra króna á síðasta ári eftir sölu hlutabréfa. Drekahraun átti um áramótin 542 milljóna hlut í sænsku móðurfélagi atNorth.

Sólþing ehf., í eigu Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, fjármálastjóra atNorth, hagnaðist um 270 milljónir á síðasta ári, að mestu vegna verðbréfaeignar. Eva Sóley tók í byrjun síðasta sumars við sem fjármálastjóri atNorth og fjárfesti samhliða í félaginu. Sólþing er áfram meðal hluthafa í atNorth en bókfærði um áramótin 420 milljóna hlutabréfaeign í óskráðum erlendum félögum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 29. september.