*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 23. nóvember 2021 09:55

Milljarða sala Novator í Telecom Itali­a

Hlutur Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors, í Telecom Italia er metinn á um 48 milljarða króna gangi yfirtakan í gegn.

Jóhann Óskar Jóhannsson
Björgólfur Thor hefur verið umsvifamikill á fjarskiptamarkaði í á annan áratug.

Alþjóðlega fjárfestingafélagið KKR hefur gert yfirtökutilboð í ítalska fjarskiptafélagið Telecom Italia. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er með tæplega 3 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu, eins og bent er á í frétt Innherja. Út frá kaupverðinu er áætlað að hlutur Björgólfs Thors í fjarskiptafélaginu sé metinn á rúmlega 320 milljónir evra, eða 48 milljarða króna.

Yfirtakan verður ein stærsta framtaksfjárfesting evrópskrar viðskiptasögu ef hluthafar félagsins og ítölsk stjórnvöld samþykkja kaupin. KKR á 37,5 prósenta hlut í dótturfélagi Telecom Italia sem heldur utan um innviði félagsins en hefur nú gert tilboð í fyrirtækið í heild sinni. KKR mun taka yfir skuldir Telecom Italia, en yfirtökutilboðið nemur alls 33 milljörðum evra. KKR verðmetur ítalska fjarskiptafélagið á 10,7 milljarða evra, 45% hærra en gengi félagsins var þegar markaðir lokuðu síðastliðinn föstudag. 

Telecom Italia var verðmætasta fjarskiptafélag Evrópu á tíunda áratugnum en félaginu hefur gengið erfiðlega að undanförnu. Gengi félagsins hefur lækkað um nær tvo þriðju frá árinu 2018, en KKR stefnir á að taka fjarskiptafélagið af markaði.