Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði nýverið frá dómi kröfum 365 hf., Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á hendur Sýn hf. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í árshlutauppgjöri Sýnar fyrir þriðja ársfjórðung.

Í upphafi árs stefndi Sýn hjónunum og krafði þau um greiðslu 1.700 milljón króna vegna meintra vanefnda á samkomulagi í kjölfar kaupa Sýnar á hluta fjölmiðla sem áður voru hluti af samsteypu 365 hf. Þau stefndu Sýn á móti en ekki hefur verið upplýst um á hvaða grundvelli málið er höfðað. Hver aðili fyrir sig, það er 365, Ingibjörg og Jón, kröfðu Sýn, forstjóra félagsins og stjórnarmenn, um einn milljarð króna hvert.

Málflutningur um frávísunina fór fram 1. október síðastliðinn og var úrskurður kveðinn upp 28. október. Hann hefur ekki verið birtur. Samkvæmt árshlutareikningnum var málinu vísað frá dómi þar sem dómkröfur þóttu „óljósar og óskýrar og slíkir annmarkar á málatilbúnaði“ að ekki var hjá því komist að vísa því frá. Sem fyrr segir hefur úrskurðurinn verið kærður til Landsréttar.