Þrátt fyrir metafköst nam tap af rekstri álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík 31,8 milljónum dollara, eða 3,6 milljörðum króna í fyrra. Árið 2012 var tapið 15,4 milljónir dollara eða 1,8 milljarðar króna. Samanlagt nemur tap fyrirtækisins því 5,4 milljörðum á þessum tveimur árum.

Fyrir skatta nam tapið 41,3 milljónum dollara í fyrra, eða 4,7 milljörðum króna samanborið við 18,4 milljónir dollara eða 2,1 milljarð króna árið 2012. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2013.

Álverið framleiddi 197 þúsund tonn af áli í fyrra, sem er mesta framleiðsla í sögu félagsins. Árið 2012 voru 190 þúsund tonn af áli framleidd í Straumsvík.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir þrennt vega þyngst þegar komi að afkomu álversins: álverð, orkuverð og afskriftir.

Glötuð fjárfesting

Rekstrarhagnaður (EBIT) var neikvæður um 38,5 milljónir dollara eða 4,4 milljarða króna í fyrra samanborið við 18,3 milljónir dollara, eða 2,1 milljarð árið 2012 . Afskriftir vegna fjárfestinga (e. impairment of assets) skýrir langstærsta hluta tapsins en þær námu 25,3 milljónum dollara, eða 2,9 milljörðum króna í fyrra.

Þessar afskriftir eru tilkomnar vegna þess að lagt hafði verið í töluverða fjárfestingu við að stækka álverið um 20% eða úr 190 þúsund tonnum í 230 þúsund tonn. Meðal annars vegna tæknilegra ástæðna var ekki unnt að klára þessar framkvæmdir. „Það er alveg rétt að þessar afskriftir eru einmitt vegna þess að hætt var við að stækka álverið um 40 þúsund tonn,“ segir Ólafur Teitur.

„Þetta er því ekki hefðbundin afskrift á búnaði sem er í notkun heldur í raun niðurfærsla á verðmætum ef svo má að orði komast - glötuð fjárfesting. Þetta er meðal annars sérhæfður búnaður sem við getum ekki notað og þurfum að selja á miklu lægra verði en við keyptum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .