„Að mati úttektarnefndarinnar eru kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Suðurnesja og fjármögnun þeirra kaupa, ein af ástæðum fyrir núverandi fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins,“ segir í skýrslu úttektarnefndarinnar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur.

Þar segir að kaupin hafi átt sér afar skamman aðdraganda og svo virðist sem ekki hafi verið leitað til sérfræðinga til að kanna áreiðanleika þeirra upplýsinga sem tiltækar voru við söluna t.d. með áreiðanleikakönnun.

Í skýrslunni kemur fram að ekki sé að finna lýsingar því hvaða reglu eigi að gilda um samþykki á kaupum og sölu á hlutabréfum. Svo virðist samt sem stjórn hafi fjallað um meirihluta þeirra kaupa sem áttu sér stað, þó einstaka dæmi finnist um annað.

Fjárfest var í félögum fyrir tæpa 46 milljarða króna á árslokaverðlagi ársins 2010 og samtals hefur verið fært til gjalda
vegna þeirra 8.315 millj.kr. á meðalverðlagi ársins 2010. Orkuveitan á í lok árs 2010 hlutabréfaeign sem bókfærð er á 14.059 millj.kr. Einnig hefur Orkuveitan fært til gjalda sem nemur 388 millj.kr. vegna skuldabréfs tengt sölu á hlutabréfum í HS Orku þar sem óvissa ríkir um verðmæti þess.

Veigamestu kaupin á hlutabréfum eru án efa fjárfestingar Orkuveitunnar í Reykjavík Energy Invest (REI), Hitaveitu Suðurnesja og félögum tengdum fjarskiptastarfsemi svo sem Gagnaveitu Reykjavíkur, og Línu.Net hf. og nemur samanlögð fjárfesting vegna þessara félaga 40.860 millj.kr. og tap vegna þeirra nemur 9.266 millj.kr.