Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Vinnuhópur starfsmanna úr fjórum ráðuneytum ásamt fulltrúm frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga unnu að skýrslunni ásamt sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum. Skýrslan er unnin fyrir tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að gögn bendi til að framleiðsla og útflutningur ferskra bolfisksafurða hafi dregist saman um 40 til 55 prósentustig frá því sem ætla mætti að hún hafi verið á tímabilinu 14. desember 2016 til 10. febrúar 2017. Fyrirliggjandi upplýsingar um aflabrögð, flutningamagn á sjó og flugi og útflutning benda til þess að framleiðsluminnkun á ferskum bolfiskafurðum á tímabilinu hafi minnkað útflutningstekjur um 3.500 til 5.000 milljóna króna á tímabilinu. „Þetta er að nokkru tap sem ekki verður bætt með nýtingu aflaheimilda síðar,“ segir í skýrslunni.

Tap á loðnuvertíð gæti orðið 1.000 milljónir

Standi verkfall fram á loðnuvertíðina og veiðar falla niður mun þjóðarbúið verða af tekjum sem líklega verða taldar í þúsundum milljóna króna, segir jafnframt í skýrslunni.

Einnig er tekið saman heildaráhrif verkfallsins á ráðstöfunartekjur sjómanna. Áhrifin eru talin nema 3.573 milljónum króna til 10. febrúar 2017. Áhrif á skylduiðgjöld til lífeyrissjóða sjómanna eru talin nema um 800 milljónum króna á tímabilinu. Hér er um að ræða tekjur sem að mestu eða öllu leyti kunna að skila sér við nýtingu aflaheimilda síðar.

Hefur áhrif á 2400 til 2600 starfsmenn

„Í það minnsta 2400-2600 starfsmenn í fiskvinnslu hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna verkfallsins. Tekjutap þessa hóps (lægri ráðstöfunartekjur) er metið á um 818 milljónir króna til 10. febrúar 2017. Hér er um að ræða beint tekjutap sem fallið hefur á hóp launþega sem ekki á möguleika á að fá hann bættan með nýtingu aflaheimildanna síðar nema ef til vill að mjög takmörkuðu leyti. Áætluð áhrif á greiðslur þessa hóps í skylduiðgjöld lífeyrissjóða eru metin á um 185 milljónir króna,“ kemur fram í skýrslunni.

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.