Talsvert fjör var á hlutabréfamarkaði í dag, en heildarvelta á aðalmarkaði kauphallarinnar nam 7,5 milljörðum króna og er það talsvert meiri velta en á meðaldegi. Hækkanir voru meira áberandi en lækkanir, en engu að síður lækkaði úrvalsvísitalan OMXI10 um 0,25% í viðskiptum dagsins og stendur hún fyrir vikið í 2.960,30 stigum.

Velta með hlutabréf þriggja félaga fór yfir milljarð króna. Langmest var velta með bréf Kviku banka, en viðskipti með bréf bankans námu 2,4 milljörðum króna og lækkaði gengi þeirra um 0,47% í viðskiptum dagsins. Þá nam velta með bréf Símans 1,6 milljörðum króna og hækkaði gengi þeirra um 2,28%, sem reyndist þriðja mesta hækkun dagsins. Loks nam velta með bréf Arion banka rétt rúmlega einum milljarði króna og hækkaði gengi bréfanna um 0,4%.

Það voru aftur á móti fasteignafélögin Reitir og Reginn sem leiddu hækkanir dagsins, en samanlögð velta með bréf félaganna var undir milljarði króna. Mest hækkuðu bréf Reita, um 5,06%, og þar á eftir kom Reginn, hvers bréf hækkuðu um 4,09%. Bréf í fasteignafélaginu Eik hækkaðu minna, eða um 1,01%.

Hlutabréfagengi Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 1,79%. Þá lækkuðu bréf Marel um 1,23% og bréf Sýnar um 0,92% í sáralitlum viðskiptum, eða sem námu 10 milljónum króna.