Hinn svokallaði Svarti föstudagur (e. Black Friday) fór líklega ekki framhjá neinum Íslendingi. Vestanhafs markar hann upphaf jólagjafainnkaupa og því keppast verslanir við að lokka til sín viðskiptavini með ýmsum tilboðum. Svarti föstudagurinn er föstudagurinn eftir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum en hún var haldin hátíðleg síðastliðinn fimmtudag.

Samkvæmt tölum frá Adobe Digital Index um netverslun í Bandaríkjunum eyddu Bandaríkjamenn 1,7 milljarði bandaríkjadala síðastliðinn fimmtudag og voru nálægt því að eyða um 2,6 milljörðum á föstudeginum svarta. Ekki eru fyrirliggjandi gögn um verslun utan internetsins á sama tíma en í frétt Washington Post um málið kemur fram að fjölmargar verslanir troðfylltust bæði fimmtudaginn og föstudaginn síðastliðinn.

Spáð er að smásöluiðnaðurinn í Bandaríkjunum vaxti um 3,5-4% í tekjum talið á þessum mánuði og næsta sem er aðeins minni vöxtur en sást í aðdraganda jóla í fyrra. Athygli vekur þó að leikfangaiðnaðurinn er talinn vaxa sérstaklega mikið í ár eða frá 4% á síðasta ári í 6,2 til 7,3% samkvæmt rannsókn NPD Group sem Washington Post vísar til.