Vaxandi áhyggjur eru til staðar um styrkleika grískra banka eftir fréttir um að gríðarlegar fjárhæðir hafi verið teknar úr bönkunum síðustu vikuna. BBC News greinir frá þessu.

Talið er að áhlaupið síðustu vikuna geti numið allt að þremur milljörðum evra. Fjárhæðin jafngildir tæpum 450 milljörðum íslenskra króna. Svo gott sem enginn árangur hefur náðst í samningaviðræðum Grikklands við alþjóðlega lánveitendur að undanförnu. Innistæðueigendur óttast að tíminn sé á þrotum og greiðslufall Grikklands sé yfirvofandi.

Í gær slitu fjármálaráðherrar evruríkjanna samningafundi við Grikki og hefur nú verið boðað til neyðarfundar næsta mánudag meðal leiðtoga evruríkjanna þar sem skuldastaða landsins verður rædd.