Eignarumsýslufélagið ALMC, sem áður var Straumur-Burðarás, greiddi starfsfólki sínu ríflega 3,3 milljarða króna í bónusa í kringum síðustu áramót. DV greindi fyrst frá þessu í morgun. Um 20 til 30 starfsmenn fengu bónusgreiðslur, en heildarupphæðin nam einhverjum 23 milljónum evra.

Hátt settir stjórnendur innan félagsins fengu hæstu bónusana, en í frétt DV kemur fram að þeir séu Andrew Bernhardt forstjóri ALMC, Jakob Ásmundsson, Óttar Pálsson og Christopher Perrin, stjórnarformaður félagsins.

Jakob Ásmundsson, fyrrum forstjóri Straums, sagði þá í viðtali við Mbl.is að bónusgreiðslurnar væru í takti við þróun mála erlendis í sambærilegum fjármálafyrirtækjum. Bónusgreiðslurnar eru í takt við bónusgreiðslukerfið sem var sett á fót á sínum tíma á aðalfundi ALMC árið 2011.

Straumur-Burðarás var tekinn yfir af FME í kjölfar efnahagshrunsins, en ALMC varð svo til árið 2010. Þá tóku kröfuhafar fyrirtækisins við stjórnartaumunum, en þeir hafa farið með framkvæmdastjórn fyrirtækisins síðan þá. Kröfuhafarnir sem um ræðir eru að mestu erlendir fjárfestar og erlendir bankar.