Bandaríski bankinn JP Morgan skilaði 6,5 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi, andvirði um 800 milljarða króna. Er hagnaðurinn nú 31% meiri en á sama tímabili í fyrra. Munurinn á milli ára er meiri en ella vegna mikils taps sem miðlarinn Bruno Iksil skóp bankanum í fyrra.

Hagnaður bankans Wells Fargo jókst um 20% á milli ára og nam 5,3 milljörðum dala á öðrum fjórðungi.

JP Morgan var fyrstur stóru bandarísku bankanna til að skila árshlutareikningi fyrir annan ársfjórðung og er litið á reikninginn sem vísbendingu um það við hverju megi búast af keppinautunum.