Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
© BIG (VB MYND/BIG)

„Tölurnar afhjúpa svo að ekki verður um villst að tolla-, hafta- og bannstefna sem fylgt hefur verið frá því um 1930 þegar innflutningur á landbúnaðarafurðum var bannaður hefur skilað minni en engum árangri," segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Í grein sem hann ritar í nýjasta tölublaði Vísbendingar kemst Þórólfur að þeirri niðurstöðu að árlegur rekstrarhalli landbúnaðarins nemur um 5-8 milljörðum króna ef ekki er tekið tillit til framleiðslustyrkja frá hinu opinbera. Mestur var hallinn árið 2008 þegar hann nam 30 milljörðum króna, samkvæmt útreikningum Þórólfs. Hann bendir á að árið hafi verið afbrigðilegt vegna gjaldfærsluáhrifa gengis á höfuðstól gengisbundinna lána.

Þar kemur m.a. fram að Þórólfur styðst við gögn frá Hagstofu Íslands, sem fékk styrk frá Evrópusambandinu til að efla tölfræðivinnslu tengda landbúnaði. Þórólfur bendir á að um langt árabil hafi landbúnaðartölfræði verið unnin af Búnaðarfélagi Íslands eða undir handarjaðri félagasamtaka bænda. Sömu samtök hafi samið um niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, geymslugjöld og vaxtakostnað. Nú sé samið um beingreiðslur og kvótasetningu.

Á meðal þess sem fram kemur í grein Þórólfs er að í venjulegu árferði sé nettó fjármagnskostnaður landbúnaðarins í kringum fimm milljarðar króna.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir alltaf horft á bændur þegar talað er um stuðning við landbúnaðinn, aldrei sé horft á neytendur. „Ef framleiðslustyrkja nyti ekki við myndu landbúnaðarvörur hér á landi kosta mun meira en þær gera í dag," segir hann.