Vegna ESB reglugerða stefnir í að íslenska ríkið muni þurfa að eyða milljörðum til að kaupa kolefniskvóta á næstu árum. Hafði ríkið sett sér það markmið að kolefnisútblástur hérlendis myndi dragast saman um fimmtung milli áranna 2005 og 2020, en þvert á móti hefur losunin aukist.

Ekki gert ráð fyrir vexti hagkerfisins

Er um að ræða losun sem kemur til utan sérstaks viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS), en hlutur hennar af heildarlosun frá Íslandi er um 60% að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ástæðan er aukinn hagvöxtur hér á landi og tilheyrandi mengun, en hvort tveggja er að stórum hluta rakið til ferðaþjónustunnar. Hafa mörg fyrirtæki þurft að greiða háar upphæðir vegna regluverksins, og má þar nefna að Icelandair hefur þurft að kaupa mengunarkvóta fyrir hátt í milljarð frá árinu 2012.

Tímabilið gert upp í einu lagi

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu, segir að ríkið þurfi að greiða annað eins fyrir tímabilið frá 2013 til 2020, en það tímabil verði gert upp við ESB í einu lagi. Hingað til hafi verð á kolefniskvóta verið lágt, en það gæti breyst.

Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun skili í haust greinargerð um kolefnisbókhaldið sem stofnunin heldur utan um. Þá verði betur hægt að áætla þann kostnað sem fellur á ríkið. „Við [...]teljum nú líklegt að þurfa að kaupa kvóta. Við erum að búa okkur undir það,“ segir Hugi.

Innleiðing á enn frekari reglum í undirbúningi

Síðan kunni að taka við frekari kvótakaup, en nú standa til að innleiða regluverk ESB sem taki við eftir árið 2020, sem myndi þýða tíðari kaup ríkisins á kolefniskvóta. „Þá munum við væntanlega, ásamt Noregi, taka upp nýjar reglur Evrópusambandsins um losun eftir 2020, sem nú eru í umfjöllun,“ segir Hugi.

Eins og áður segir lendir stærsti kostnaðurinn á ríkinu, en annað gildir um stóriðjuna, flugið og ýmis fyrirtæki sem eru innan viðskiptakerfisins sjálfs. „Stóriðjan er í viðskiptakerfinu og er því ekki á þessari beinu ábyrgð stjórnvalda,“ segir Hugi.