Ekkert mun vera því til fyrirstöðu að slitastjórnir Landsbankans og Glitnis selji 50 milljarða króna lán sem þær veittu Malcolm Walker, stofnanda og forstjóra bresku matvörukeðjunnar Iceland Foods, og lykilstjórnendum til annarra fjármálafyrirtækja. Verði það gert munu slitastjórnirnar veita þeim sem kaupir lánið afslátt af kröfunni.

Þetta mun vera algengur háttur í millibankaviðskiptum.

Salan skilar meiri heimtum

Malcolm Walker og lykilstjórnendur eiga 23% hlut í Iceland Foods á móti slitastjórnum Landsbankans og Glitni. Eins og frá var greint á miðvikudag buðu þeir tæpa 1,2 milljarða punda, jafnvirði 235 milljarða íslenskra króna, fyrir hlut þrotabúanna í matvöruverslunina. Miðað við það er heildarvirði verslunarinnar 1,55 milljarðar punda, jafnvirði 300 milljarða króna. Þar af nemur verðmæti þess 67% hlutar sem slitastjórn Landsbankans stýrir rétt rúmum milljarði punda, rétt rúmum 200 milljörðum íslenskra króna. Slitastjórn Glitnis heldur á 10% hlut og nemur verðmæti hans þessu samkvæmt 155 milljónum punda, rétt rúmum 30 milljörðum króna.

Salan skilar því að væntar heimtur úr þrotabúum Landsbankans og Glitnis verða hærri en ella þar sem söluandvirðið er umfram bókfært virði hlutanna. Það er í samræmi við það sem skilanefndir og slitastjórnir beggja banka hafa sagt í gegnum tíðina, þ.e.a.s. að eignasöfn þeirra eru færð til bókar með varfærnum hætti og á lágu verði. Samkvæmt því sem fram kom í Fréttablaðinu í morgun nemur bókfært virði Iceland-keðjunnar 140 milljörðum króna hjá bönkunum.

Lítið vitað um seljendalánið

Eins og áður sagði veittu þrotabúin Walker og lykilstjórnendum Iceland Foods lán til að yfirbjóða keppinauta. Lánið hljóðar upp á 250 milljónir punda, jafnvirði 50 milljarða króna. Lán sem þessu munu algengt í umfangsmiklum fyrirtækjaviðskiptum, ekki síst ef þau leiða til þess að verðið hækkar. Verði lánið selt, hugsanlega eftir þrjú til fjögur ár þegar slitum þrotabúanna lýkur, er ekki útilokað að sambærilegur afsláttur verði veittur af því og af öðrum lánum.

Engar upplýsingar hafa fengist um lánið að öðru leyti, hvorki um kjör né lánstíma. Eftir því sem næst verður komist hefur aðeins verið skrifað undir viljayfirlýsingum um sölu bankanna á hlut þeirra í Iceland Foods og verður á næstu vikum farið í að ganga frá samningum.