Breska lögreglan telur að Eva Rausing, ein af auðugustu konum Bretlandseyja, hafi verið látin í viku í húsi sínum áður en lík hennar fannst. Eiginmaður hennar, milljarðamæringurinn Hans Kristian Rausing var handtekinn vegna málsins á mánudag. Andlát konunnar mun hafa verið honum svo þungbært að hann hefur verið á sjúkrahúsi í umsjón lækna síðan þá. Hann hefur hins vegar ekki verið yfirheyrður vegna málsins. Óljósar fregnir berast af ástandi hans. Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að meðferðin tengist eiturlyfjanotkun mannsins.

Ekki er þó útilokað að annað en harmur sé ástæða sjúkrahússvistarinnar. Við húsleit á heimili þeirra hjóna fannst eitthvað magn eiturlyfja. Talið er að konan hafi látist af völdum eiturlyfjaneyslu. Þau hjónin áttu við eiturlyfjaneyslu að etja í mörg ár en þau munu hafa kynnst í meðferð. Fyrir þremur árum munu þau hafa rétt svo komið sér hjá því að lenda í fangelsi af völdum neyslunnar eftir að konan sem lést var handtekinn í sendiráði Bandaríkjanna í borginni. Hann hafði gert tilraun til að smygla kókaíni inni í húsið.

Þau hjónin eru bæði af milljarðamæringum komin. Hans Kristian Rausing er afabarn mannsins sem fann upp mjólkurfernuna en kona hans var dóttir fokríks stjórnanda hjá Pepsí.

Hús hjónanna er við götuna Cadogan Place í Lundúnum. Nokkrum húsum frá býr Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar Group.