Fari svo að Donald Trump verði kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna getur hann treyst á aðstoð góðvinar síns og milljarðamæringsins Carl Icahn í baráttunni um að blása lífi í efnahag landsins.

Trump er meðal efstu manna á lista Repúblíkanaflokksins í forvali forsetakosninganna sem fara fram á næsta ári. Þessi umdeildi viðskiptajöfur hefur vakið mikla athygli í kosningabaráttu sinni og hafa ummæli hans um innflytjendur frá Mexíkó fallið misvel í kramið hjá Bandaríkjamönnum.

Eftir að Trump tilkynnti framboð sitt greindi hann frá því að hann vildi fá Icahn, sem er einn þekktasti vogunarsjóðsstjóri heims, til að vera fjármálaráðherra í ríkisstjórn sinni. Sagði hann Icahn vera kjörinn í starfið vegna víðtækrar reynslu sinnar úr fjármálageiranum.

Icahn var hins vegar ekki lengi að útiloka að hann myndi taka starfið að sér. Skrifaði hann færslu á vefsíðu sína þar sem hann sagði áhugaleysi sitt vera algert.

Nú er þó komið annað hljóð í skrokkinn á milljarðamæringnum. Icahn skrifaði nefnilega á Twitter eftir kappræður Repúblíkanaflokksins á dögunum að hann hefði heillast svo mikið af Trump að hann væri búinn að skipta um skoðun. Fari svo að Trump verði Bandaríkjaforseti má því fastlega búast við því að Icahn verði fjármálaráðherra. Þó er enn langt í land með að svo verði.