Eftir hrun hafa bankarnir í grófum dráttum fjármagnað sig með innlánum, víkjandi lánum frá íslenska ríkinu og sértryggðum skuldabréfum. Sértryggð skuldabréf eru í grunninn þannig að banki þarf að leggja veð á móti og því er sá er lánar í raun ekki að taka mikla áhættu því bankinn er að veðsetja samsvarandi hluta af efnahagsreikningi sínum og oft jafnvel örlítið hærra hlutfall.

Vegna þessa eru það töluvert mikil tíðindi að Arion banki hafi nú gefið út skuldabréf upp á 300 milljónir evra, eða sem nemur 45 milljörðum króna. En þó að íslensku bankarnir séu núna að gefa út skuldabréf í evrum eru fjárhæðirnar brot af því sem þær voru fyrir hrun.

Sem dæmi þá gaf Glitnir út skuldabréf fyrir 4 milljarða evra á EMTN-markaðnum árið 2005 og hann gaf einnig út skuldabréf fyrir milljarð evra á norska skuldabréfamarkaðnum og þeim ástralska. Samtals gaf bankinn því út skuldabréf fyrir 5 milljarða evra þetta ár. Landsbankinn gaf út skuldabréf fyrir 5 milljarða evra árið 2005 og Kaupþing gaf út skuldabréf fyrir 6 milljarða evra á erlendum mörkuðum.

Aðgangur að erlendu fjármagni varð síðan erfiðari eftir því sem leið á og í lok árs 2007 má segja að fjármálakreppan hafi hafist. Skuldatryggingaálag bankanna hækkaði og hafði það mikil áhrif á skuldabréfaútgáfu þeirra og endurfjármögnun. Til að gera langa sögu stutta þá voru 8,5 milljarðar evra á gjalddaga næstu 15 mánuði eftir fall þeirra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .