Hlutafé Alvotech var nýlega aukið um 70 milljónir dollara, eða um 9 milljarða króna, þegar Alvogen, systurfélag Alvotech, nýtti áskriftarréttindi í félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hlutafé Alvotech hefur þar með verið aukið um 35 milljarða króna undanfarið ár.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru stjórnendur Alvotech vongóðir um að á næstu vikum ljúki viðræðum við sérhæft yfirtökufélag (SPAC) í Bandaríkjunum um tvískráningu félagsins í Bandaríkjunum og á Íslandi að undangengnu hlutafjárútboði. Í undanförnum fjármögnunarumferðum hefur Alvotech verið metið á um 300 milljarða króna.

Búist er við að frekari áskriftarréttindi hluthafa verði nýtt fyrir skráningu félagsins á markað. Alvogen og Aztiq Pharma Partners, fjárfestingafélag í meirihlutaeigu Róberts Wessman, stofnanda Alvotech og forstjóra Alvogen, eiga ónýtt áskriftarréttindi upp á um átta milljarða króna.

Þá hafa hluthafar sem tóku þátt í 100 milljóna dollara hlutafjárumferð Alvotech síðastliðinn vetur rétt á að breyta um 30 milljóna dollara hluthafaláni í hlutafé fyrir skráningu Alvotech. Í þeirri fjármögnunarumferð komu innlendir fjárfestar ótengdir stjórnendum Alvotech inn í hluthafahópinn í fyrsta sinn. Þar á meðal voru sjóðir í stýringu hjá Stefni, Hvalur, TM, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, og hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Stefánsdóttir, eigendur Fagkaupa. Íslensku fjárfestarnir lögðu Alvotech til 15 milljónir dollara, um tvo milljarða króna.

Í júní nýttu eigendur 300 milljóna dollara skuldabréfa Alvotech breytirétt til 106 milljóna dollara hlutafjáraukningar í Alvotech sem samsvarar um 13 milljörðum króna. Samhliða því var lengt í skuldabréfunum til ársins 2025, breytirétturinn felldur niður og vextir lækkaðir. Alvotech var auk þess lánað um sex milljarða króna til viðbótar

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .