Mikil fjölgun eða um 62%, varð á síðasta ári meðal þeirra Íslendinga sem sóttu sér læknismeðferð erlendis eða frá 781 árið 2017 upp í 1.268 á síðasta ári að því er Morgunblaðið greinir frá.

Flestir þeirra sem sóttu sér meðferð erlendis, eða 816 þeirra einstaklinga nýttu sér Evróputilskipun sem tók gildi hér á landi 1. júní 2016, en hún heimilar sjúklingunum að sækja sér þjónustu innnan sambandsins en fá hana greidda af íslenskum sjúkratryggingum eins og hún væri gerð hér á landi.

Námu greiðslur Sjúkratrygginga vegna þessa alls 55 milljónum króna, en árið 2017 voru umsækjendurnir um þessa lausn 243. Segir Halla Björk Erlendsdóttir deildarstjóri í alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands að þessi fjölgun væri fyrst og fremst vegna tannlækninga.

Geta notað lausnina ef biðtíminn yfir hámarki

Ástæða þessarar fjölgunar er að miklu leiti rakin til langra biðlista, en skilyrðið fyrir að nýta þessa lausn og fá greiddan uppihalds og ferðakostnað er að biðtíminn sé yfir 90 dögum.

Fengu 114 manns greiddan uppihalds- og ferðakostnað vegna slíkra meðferða í fyrra og greiddu Sjúkratryggingar alls 44 milljónir króna vegna þeirra á síðasta ári. Árið 2017 voru það 49 manns og 5 árið 2016 sem fengu slíkan kostnað greiddan. Í þessum flokki hafa liðskiptaaðgerðir verið algengastar.

Mesti kostnaðurinn vegna aðgerða sem ekki eru í boði hér

Til viðbótar höfðu 338 manns sótt um hjá svokallaðri siglinganefnd um meðferð erlendis, en undir hana falla reglur um meðferðir sem eru ekki í boði hér á landi. Fram til þess tíma hafði tæplega milljarður verið greiddur út fyrir slíkar meðferðir.

Slíkar greiðslur eru ekki fyrir ýmis konar tilraunameðferðir, heldur verður hún að vera viðurkennd meðferð sem nefndin samþykkir. Árið 2017 var sótt um 489 slíkar meðferðir en heildargreiðslur fyrir þær það ár námu 1,5 milljörðum.