Mikið hefur verið rætt og ritað um fyrirkomulag veðmála á Íslandi. Eitt slíkt fyrirtæki má starfa hér á landi, Íslenskar getraunir, sem rekið er af Íslenskri getspá, sem er rekið af ÍSÍ, ÖBÍ og UMFÍ.

Magnús Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri RunningBall á Íslandi, segir að veðmálalöggjöfin sé stífust á Íslandi af öllum Norðurlandaríkjunum. „Það helsta sem ég hef verið að tala fyrir er að opna á þetta. Þarna er möguleiki bæði fyrir íþróttafélögin og fjölmiðla að fá inn auglýsingatekjur.“ Hann segir að líkja megi veðmálastarfsemi á Íslandi við áfengissölu. „Lengjan og ÁTVR eru einokunaraðilar. Manni þykir eðlilegt að það sé samkeppni á þessum mörkuðum eins og annars staðar. Það er ekki ólíkt þessa dagana að kaupa áfengi á erlendum netverslunum og að notast við erlenda veðbanka.“

Íþróttafélögin njóta hluta hagnaðar Íslenskra getrauna. Í reglugerð fyrir Íslenskar getraunir segir jafnframt að þátttakanda sé heimilt að heita á íþróttafélag um leið og hann tekur þátt. Fjöldi áheita á félag er síðan vísbending til ÍSÍ og UMFÍ um ráðstöfun á hagnaðarhluta félaganna af getraunastarfseminni. Magnús segir að upphæðirnar sem renni til íþróttafélaganna komi þeim vel, sérstaklega minni félögum. „Ég held að það sé erfiðara fyrir félögin að taka upp hanskann fyrir frelsið einmitt vegna þessara upphæða. En á móti gætu þau fengið arðbærari samninga hjá erlendum veðmálafyrirtækjum ef þau fengju starfsleyfi á Íslandi.“

Starfshópur um happdrætti

Starfshópur um happdrætti og fjárhættuspil var myndaður í dómsmálaráðuneytinu í lok apríl 2021. Starfshópurinn hefur það hlutverk að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála. Er hópnum ætlað að gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum um reglugerðum um happdrætti, teljist þær nauðsynlegar, og eftir atvikum að greina fjárþörf til þess að tryggja að mögulegar breytingar geti átt sér stað. Meðal þess sem starfshópnum var falið að athuga var hvernig hægt væri að stemma stigu við ólöglegri netspilun hér á landi.

Hópurinn átti að skila af sér fyrstu tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2021 en ekkert hefur bólað á tillögunum til þessa. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður, er formaður starfshópsins, sem inniheldur að miklu leyti hagsmunaaðila.

Fréttin hefur verið leiðrétt er varðar veltu á veðmálamarkaði og markaðshlutdeild Lengjunnar. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.