*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 29. febrúar 2020 11:05

Landsvirkjun gæti orðið af milljörðum

Verðhrun á norræna raforkumarkaðnum gæti þýtt milljarðatekjutap fyrir Landsvirkjun eftir nýjan raforkusamning við Norðurál.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Raforkuverð á norræna raforkumarkaðnum Nordpool hefur verið sögulega lágt síðustu daga. Verðið féll um 50% í upphafi ársins miðað það verðið í byrjun nóvember þegar nýr raforkusamningur tók gildi milli Norðuráls og Landsvirkjunar. Verðið í samningnum er beintengt verðinu á Nordpool raforkumarkaðnum. Því kann Landsvirkjun að verða fyrir milljarða tekjutapi á þessu ári miðað við verðið í upphafi nóvember.

Í uppgjöri Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, kemur fram að raforkuverðið hafi fallið frá því fyrir áramót úr um 40 dollurum á megavattstund í um 20 dollara á megavattstund.

Eiga ekki von á að lækkunin vari til lengdar

Vonir hafa staðið til að samningurinn við Norðurál verði liður í hækkandi raforkuverðs Landsvirkjunar til stóriðju. Skrifað var undir samninginn árið 2016 en hann gildir frá 1. nóvember 2019 til 2023 og sér Norðuráli fyrir um 30% af raforkuþörf álversins á Grundartanga. Miðað við verðfallið frá því í nóvember mætti áætla að tekjur sem Landsvirkjun kann að verða af miðað við óbreytt raforkuverð nemi þremur til fjórum milljörðum króna á ársgrundvelli.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun metur fyrirtækið það sem svo að ólíklegt sé að lækkunin vari til lengri tíma. „Sérfræðingar sem starfa á norræna orkumarkaðnum sem  greinendur hjá Landsvirkjun hafa rætt við telja líklegt að um tímabundna lækkun sé að ræða og að verðið geti farið á svipaðan stað og áður á næstu 12 mánuðum,“ segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Þá séu einungis um 10% af raforku sem Landsvirkjun selur tengd Nordpool raforkuverðinu. Í uppgjöri Landsvirkjunar sem birt var í gær kemur fram að félagið hafi ekki keypt varnir gegn sveiflum á Nordpool markaðnum líkt og félagið hafi gert gagnvart sveiflum í álverði.

Óvenjulegt veður skýri lækkanir

Ástæðan fyrir verðfallinu á Nordpool markaðnum er sögð óvenjulegt veðurfar á Norðurlöndunum, sem einkennst hefur af hlýindum, hvassviðri og vætutíð. Hlýindin hafa í för með sér minni eftirspurn eftir raforku til húshitunar. Rigningar leiða af sér að mikið vatn er í uppistöðulónum og rokið að vindorkuver hafa framleitt mikla raforku.

 

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér