Eþíópísk stjórnvöld hafa samið við íslenska félagið Reykjavík Geothermal um jarðhitavirkjun þar í landi. Virkjunin verður 500 megavött og rís á Tulu Moye-svæðinu, sem er um 150 kílómetra suður af höfuðborg landsins, Addis Ababa. Virkjunin er síðari áfangi af verkefni sem telur 1000 megavött, en Reykjavík Geothermal samdi um fyrri áfanga þess fyrir tveimur árum síðan.

„Þetta er mjög mikilvægur áfangi. Loksins hefur verið gengið frá öllum smáatriðum í samningunum, ábyrgð stjórnvalda, gengistryggingum og þess háttar. Sem gerir að verkum að við getum farið af stað að fullum krafti," er haft eftir Guðmundi Þóroddsyni, framkvæmdastjóra Reykjavík Geothermal, á fréttavef RÚV.

„Eftir þennan áfanga er ekki því til fyrirstöðu að hefja boranir að fullum karfti og aðra uppbyggingu og við reiknum með því að í vetur förum við að sjá gufu á yfirborði," segir Guðmundur jafnframt.

Í frétt RÚV kemur fram að heildarupphæð samninganna nemi jafnvirði 500 milljörðum íslenskra króna.