Gert er ráð fyrir að tekjur vegna bankaskatts muni hækka verulega, eða úr 1,1 milljarði króna í ár upp í 14,2 milljarða króna á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var á Alþingi nú klukkan fjögur.

Mestur hluti hækkunarinnar, eða 11,3 milljarðar, kemur til vegna þess að hækkunin mun einnig taka til fjármálafyrirtækja í slitameðferð. Hingað til hafa slíkar stofnanir verið undanþegnar bankaskattinum. Þá mun bankaskattsprósentan hækka úr 0,041% í 0,145%.

Almennur fjársýsluskattur verður aftur á móti lækkaður úr 6,75% í 4,5%. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins af fjársýsluskatti lækki því um 1,1 milljarð. Nettóaukning skatttekna vegna fjármálafyrirtækja verða 13,2 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að skattar lækki á öll fyrirtæki nema stærri fjármálafyrirtæki og áhrif skattbreytinga verði jákvæð hjá mannaflsfrekum atvinnugreinum.