Ríkissjóður mun greiða 970 milljónir króna í styrk til sauðfjár- og nautgripabænda til að mæta áhrifum Covid á íslenskan landbúnað. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við afgreiðslu málsins var miðað við að 727 milljónir króna rynnu til sauðfjárbænda og 243 milljónum króna til kúabænda. Þetta kemur fram í tilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Af þeim 727 milljónum króna sem fara til sauðfjárbænda, falla 562 milljónir undir viðbótargreiðslu á gæðastýringarálagi kindakjöts vegna ársins 2020, um þriðjungshækkun frá því sem áður hefur verið greitt í þennan málaflokk vegna síðasta árs. Þá verður 65 milljónum króna varið í viðbótargreiðslu á ullarframleiðslu árið 2020. Sú fjárhæð bætist við greiðslu vegna ullarnýtingar þegar uppgjör fer fram um mitt ár 2021. Aðrar greiðslur renna til framkvæmda í sérstakri aðgerðaáætlun í sauðfjárrækt.

Þær 243 milljónir króna sem renna til nautgripabænda verða greiddar núna í marsmánuði og dreifist á alla ungnautagripi sem komu til slátrunar á árinu 2020. Það voru alls tæplega 11 þúsund gripir og aukagreiðslan verður því tæpar 22.400 króna á hvern grip.

Í tilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er aðgerðin sögð hluti af 12 liða aðgerðaáætlun til að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar m.a. í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á greinina.