GEORG jarðhitaklasinn heldur utan um styrki til jarðvísindaverkefna á Íslandi, þar á meðal fyrir Horizon 2020 verkefni Evrópusambandsins, sem er stærsta rannsóknar- og þróunaráætlun sögunnar. Hefur áætlunin úr um 80 milljörðum evra, eða sem samsvarar 9.750 milljörðum íslenskra króna, að spila á árabilinu 2014 til 2020.

Hjalti Páll Ingólfsson rekstrarstjóri GEORG segir markmiðið með klasanum vera að auka virði þeirra rannsókna sem gerðar eru í jarðhita og efla tengsl milli iðnaðarins og háskólasamfélagsins hér á landi.

„Í dag er GEORG rekinn sem sjálfstætt félag sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða og að mestu fjármagnaður með verkefnafjármögnun. Að því standa 22 aðilar, en félagið tekur þátt í og leiðir verkefnaskrifstofur fyrir þrjú stór alþjóðleg verkefni.“

Verkefnin þrjú sem Hjalti Páll nefnir eru Deepegs, Geothermica Era Net og loks er í burðarliðnum verkefnið Krafla Magma Testbed. Þess má geta að annars staðar í blaðinu er rætt við Ásgeir Margeirsson forstjóra HS Orku nánar um Deepegs verkefnið.

Djúpborun á lághitasvæðum

„HS Orka leiðir Deepegs verkefnið, en það hlaut 20 milljóna evra styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020. ISOR og Landsvirkjun taka einnig þátt í verkefninu af Íslands hálfu, en það snýst um annars vegar djúpborunarverkefni á Reykjanesi og hins vegar aðra djúpborun í Frakklandi. Þetta er samstarfsverkefni þar sem menn læra hverjir af öðrum, sem hefur gengið ágætlega, þó þó það hafi aðeins verið hiksti í því út af leyfismálum og öðru slíku í Frakklandi,“ segir Hjalti Páll, en hann segir að um helmingur styrktarupphæðarinnar renni til aðila verkefnisins hér á landi, en það samsvarar um 1,3 milljörðum íslenskra króna.

„Deepegs gengur út á að bora dýpra og komast í meiri hita og meiri þrýsting hér heima, en úti í Evrópu snýst það um að komast í nýtanlegan hita þar sem hún er næst uppruna jarðhitaorkunnar í dýpri kerfum, á lághitasvæðum. Það eru ákveðin svæði í Frakklandi sem eru nothæf, þar sem eru misgengi í jarðskorpunni og von er til að komast í um 200 gráðu hita á um 5 kílómetra dýpi. Verið er að skoða þetta í suður Frakklandi, nálægt Lyon en líka norðar, í Alsace héraði við Rín. Hugmyndin er að verkefnið sýni fram á að hægt sé að ná nægilega mikilli orku til að hvort tveggja framleiða rafmagn en einnig til hitaveitu, eða í einhvers konar iðnaðarstarfsemi þar sem hitinn væri nýttur.“

50 milljón evrur í jarðhita

Geothermica Era Net er annað stórt verkefni sem fellur undir Horizon 2020 rannsóknaráætlunina, sem er leitt af Orkustofnun, en allir fimm starfsmenn GEORG, hafa aðsetur í Orkugarðinum við Grensásveg þar sem stofnunin er til húsa.

„Auk Orkustofnunar tekur Rannís þátt í því fyrir Íslands hönd, en okkar hlutverk er að aðstoða stofnuna við að reka Geothermica skrifstofuna. Þetta er samstarfs verkefni 18 stjórnsýslustofnana og styrktaraðila í 14 löndum, þar þeir hafa tekið sig saman og lagt í púkk allt að 20 milljón evrur. Síðan hefur Evrópusambandið lagt um 6 milljón evrur ofan á það, svo þetta eru samtals 26 milljón evrur sem er úr að spila til að styðja við nýsköpunar- og tækniþróunarverkefni víðs vegar í Evrópu,“ segir Hjalti Páll en heildarfjárhæðin samsvarar tæplega 3,2 milljörðum íslenskra króna.

„Af níu verkefnum sem boðið hefur verið að ganga til samninga við Orkustofnum sem verkefnastjóra Geothermica Era Net í Evrópu, eru fjögur þeirra með íslenskri þátttöku og til þeirra munu renna rúmlega 1,6 milljónir evra. Það voru 35 aðilar sem byrjuðu umsóknarferlið, sem er tveggja þrepa, og síðan voru valdir þeir sem fengu hæstu einkunnina. Gert er ráð fyrir að þátttakendur í þessum verkefnum komi með annað eins á móti og má því segja að þetta verkefni eitt og sér spýti yfir 50 milljónum evra inn í jarðhitaverkefni í Evrópu.“

Spurður hve mörg íslensk verkefni hafi dottið úr hópnum í umsóknarferlinu sagði hann það einungis hafa verið eitt. „Við erum mjög lítið þjóðernissinnuð í úthlutunum úr sjóðunum, við hugsum þetta alltaf sem einn heildarpakka.“

Borað viljandi í kviku

Þriðja stóra verkefnið sem er svo í undirbúningi snýst svo um að skilja betur hvernig kvika hegðar sér í jarðskorpunni.

„Í KMT, eða Krafla Magma Testbed, er ætlunin að bora viljandi í kviku, undir Kröflueldstöðunni, en það er eitthvað sem áður hefur verið gert þrisvar eða fjórum sinnum í heiminum, í flestum tilfellum óvart. Það hefur svo sem ekki haft annað í för með sér en að borinn hefur fest í kvikunni, en hugmyndin er að með þessu væri hægt að skilja af hverju er kvikan nákvæmlega þar sem hún er, og hvort hægt væri að finna hana með mælingum á yfirborðinu. Þannig væri bæði hægt að forðast að bora í hana, sem og að bora alveg að henni ef maður vill það, sem gæti líka boðið upp á spennandi möguleika.“

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .