Íslenska verkfræðistofan Efla hefur í samstarfi við norsku vegagerðina komið að vegagerð í landinu sem kostaði í heildina 100 milljónir norskra króna, eða sem samsvarar 1,35 milljörðum íslenskra króna.

Hefur stofan lokið hönnun á 4,5 kílómetra vegarkafla sem er norðan við Þrándheim en fyrirtækið hefur á undanförnum árum verið umsvifamikið í verkefnum í landinu að því er fram kemur í frétt í Morgunblaðinu .

„Þetta voru þrír aðskildir hlutar á vegkaflanum sem voru samtals um 4,5 kílómetrar," segir Guðmundur Guðnason, sviðstjóri samgangna hjá Eflu við blaðið, en hann segir að styrking krónu gæti haft áhrif á frekari starfsemi í landinu.

„Þetta voru hefðbundin vegagerðarverkefni þar sem við vorum með veg- og fráveituhönnun, hönnun á veglýsingu og á stoppistöðvum fyrir strætó, gerð eignaskipta á lóðum, hlaðna stoðveggi og áhættugreiningu á veginum."

Unnu þrjú önnur verkefni á svipuðu svæði

Guðmundur segir að hönnunin hafi tekið sex mánuði en fyrirtækið hefur nýlega unnið þrjú önnur verk á svipuðu svæði í landinu sem þegar eru komin í rekstur.

Félagið hefur einnig verið í verkefnum við Oslóborg sem og við gerð jarðganga í norðurhluta landsins.