Stjórnvöld í Katar greiddu allt að einum milljarði dollara í lausnargjald í skiptum fyrir meðlimi konungsfjölskyldu landsins sem var rænt þegar þeir voru í veiðiferð í Írak. Þetta kemur fram í frétt Financial Times . Eru þessar greiðslur taldar ein af ástæðum þess að Sádí-Arabía ásamt þremur öðrum ríkjum slitu stjórnmálasambandi við Katar á mánudag vegna fjárstuðnings Katar til hryðjuverkasamtaka.

Í fréttinni segir að stjórnvöld í Doha hafi greitt milljarð dollara í skiptum fyrir 26 gísla í Írak auk 50 gílsa sem höfðu verið í haldi í Sýrlandi. Greiðslurnar fóru til samtaka í Sýrlandi sem eru tengd al-Kaída og Íranskra öryggissveita. Katar hafi þar með á einu bretti greitt háar upphæðir til aðila sem eru vægast sagt litnir hornauga í Mið-Austurlöndum.

Um 700 milljónir dollara fór til Íranskra samtaka og herskárra Shia múslima þar í landi auk þess sem á bilinu 120-140 milljónir fóru til Tahrir al-Sham samtakanna í Sýrlandi sem hefur tengsl við al-Kaída. Þar að auki er talið að annar hópur herskárra íslamista, Ahrar al-Sham samtökin hafi fengið 80 milljóna dollara greiðslu.

Í samtali Financial Times við leiðtoga úr hópi sýrlenskra uppreisnarmanna kemur fram að stjórnvöld í Katar virðast vera tilbúinn til þess borga hverjum sem er til þess að leysa gísla úr haldi.