Fjarðalax tapaði 425 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta þýðir að ríflega 800 milljóna króna viðsnúningur varð í rekstri félagsins milli ára því árið 2013 skilaði félagið 381 milljóna króna hagnaði. Milljarðs króna sveifla varð í virði lífrænna eigna.

Fjarðalax stundar laxeldi í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði á Vestfjörðum. Stóra breytingin milli ára er gangvirðisbreyting lífrænna eigna. Í ársreikningnum fyrir árið 2013 var þetta tekjufærsla upp á 803 milljónir króna en samkvæmt þeim nýja, ársreikningnum fyrir árið 2014, var þetta gjaldfærsla upp á 237 milljónir. Þetta er ríflega milljarðs króna sveifla á milli ára sem skýrist að hluta vegna tjóns sem varð í stórri sjókví félagsins í óveðri í Patreksfirði í janúar 2014.

Félagið skipti um endurskoðanda í fyrra. Rýni endurskoðun ehf. endurskoðaði reikning félagsins árið 2013 en nú gerir KPMG það. Athygli vekur að í ársreikningi 2014 kemur fram að eldri ársreikningur hafi verið endurgerður (e. restated), sem er óvenjulegt. Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Fjarðalax, segir að þetta hafi verið gert því breytt hafi verið um uppgjörsaðferð.

"Þessa mikla sveifla í virði lífrænna eigna er líkast til ekki svona mikil í raun því líklega var virði þessara eigna ofmetið 2013," segir Einar Örn. "Við áttum til dæmis meiri lífmassa í lok árs 2014 en í lok árs 2013 og því hefði  gangvirðisbreytingin átt að vera  jákvæð ef við höfðum notað sömu reikningsaðferð árið 2013 og 2014. Það sem ég er að segja er að samanburður milli þessara ára verður alltaf svolítið bjagaður út af mismunandi uppgjörsaðferðum. Samanburðurinn verður marktækur þegar næsti ársreikningur kemur út. "

Fiskisund á 94%

Fjarðalax er að langstærstum hluta í eigu Fiskisunds ehf., sem á 94% hlut. Áning Ásbrú ehf. á 3% og Höskuldur Steinarsson, framleiðslustjóri á 3%. Eignarhlutur Fiskisunds í Fjarðalaxi hefur aukist töluvert því samkvæmt ársreikningnum 2013 átti félagið 59% hlut í laxeldisfyrirtækinu. Þá átti danska félagið Sams Trading 29% og bandaríska félagið Dorvenir Amaral 6%. Nú eru þessir erlendu hluthafar farnir út úr Fjarðalaxi. Fiskisund er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Höllu Sigrúnu Hjartardóttur, fyrrverandi stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, og Kára Þórs Guðjónssonar. Þremenningarnir unnu um tíma saman hjá fyrirtækjaráðgjöf Glitnis og síðar Íslandsbanka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .